Evrópsk ráðstefna um jarðvanga í Reykjanesbæ

Evrópuráðstefna UNESCO-jarðvanga verður haldin í Reykjanesbæ dagana 2.–4. október næstkomandi. Þetta er í sautjánda sinn sem slík ráðstefna er haldin en nú í fyrsta sinn á Íslandi.
Á Íslandi eru tveir jarðvangar sem Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur viðurkennt sem UNESCO Global Geoparks. Það eru Reykjanesjarðvangur og Kötlujarðvangur. Náttúrufræðistofnun hefur frá upphafi verið í góðu samstarfi við íslensku jarðvangana og átt fulltrúa í Íslandsnefnd UNESCO-jarðvanga.
Evrópska jarðvangsráðstefnan er nú í fyrsta sinn haldin hér á landi og því gefst einstakt tækifæri til að kynna sér fjölbreytta starfsemi jarðvanga í Evrópu og víðar. Nú þegar hafa yfir 300 þátttakendur skráð sig á ráðstefnuna, sem haldin verður í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Dagskrá má finna á vef ráðstefnunnar.
Þá má geta þess að 20 ár eru síðan að alþjóðlegt tengslanet jarðvanga var stofnað og gegnir það mikilvægu hlutverki innan jarðvanganna er varðar miðlun og fræðslu. Í tilefni þess hefur verið settur upp sérstakur vefur á fjölda tungumála, þar með talinni íslensku, þar sem efnt er til samkeppni í ljósmyndun, myndasögum og ritlist ungmenna.
20th GGN Anniversary – Geoparks and you
Náttúrufræðistofnun hvetur alla til að kynna sér íslensku jarðvangana tvo og taka þátt í fjölbreyttri starfsemi þeirra.