Skip to main content
search

Frjótímabil og dreifingarmynstur þriggja ofnæmisvaldandi tegunda í Evrópu

Í vísindatímaritinu Scientific Data birtist nýlega grein um frjótímabil þriggja helstu ofnæmisvaldandi trjátegunda í Evrópu: elri (Alnus), birki (Betula) og ólífu (Olea). Niðurstöður rannsóknarinnar sýna hvernig loftslagsbreytingar og breytingar í landnotkun hafa áhrif á magn og dreifingu frjókorna, sem geta haft alvarleg áhrif á heilsu fólks með ofnæmi. 

Í rannsókninni var notast við veðurgagnasafnið ERA5 og loftlags- og loftgæðalíkanið SILAM til að spá fyrir um blómgunartímabil og reikna út dreifingarmynstur frjókorna elris, birkis og ólífu um alla Evrópu fyrir árin 1980–2022. Notuð voru gögn frá 34 Evrópulöndum til að endurskapa árlegan breytileika og þróun í framleiðslu og dreifingu frjókorna. Niðurstöðurnar nýtast meðal annars sem framlag til rannsókna á breytingum á evrópsku gróðurfari vegna loftslagsbreytinga og mannlegra áhrifa, til vöktunar á líffræðilegri fjölbreytni og til notkunar í heilsufarslegum tilgangi.  

Dr. Ewa Przedpelska-Wasowicz líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun tók þátt í rannsókninni og er einn af höfundum greinarinnar.  

Greinin er öllum aðgengileg á netinu.