Skip to main content
search

Grágæsir taldar um helgina

Grágæsir verða taldar hér á landi og á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum um komandi helgi, 9.–10. nóvember 2024. Þetta er liður í vöktun grágæsastofnsins sem hófst á vegum Wildfowl & Wetlands Trust (WWT) árið 1960. Í dag hefur British Trust for Ornithology (BTO) tekið við vöktuninni. 

Náttúrufræðistofnun óskar eftir að fá upplýsingar um grágæsir sem fólk verður vart við hér á landi á næstu dögum, þar á meðal hvar þær sáust og mat á fjölda þeirra. Upplýsingarnar verða sendar samstarfsaðilum hér á landi og á Bretlandseyjum sem taka saman árlegar skýrslur um talningarnar.

Í fyrra voru taldar 25.663 grágæsir hér á landi, þar af 22.308 gæsir á Suðurlandi, 1091 á Suðvesturlandi, 620 á Norðurlandi og 1644 á Austur- og Suðausturlandi.

Vinsamlegast sendið upplýsingarnar til Svenju N.V. Auhage (svenja@natt.is).