Kristinn Haukur Skarphéðinsson látinn
Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun lést að kvöldi 16. nóvember, 68 ára að aldri, eftir skammvinn veikindi.
Kristinn Haukur fæddist í Reykjavík þann 18. febrúar 1956, sonur Kristínar Guðmundsdóttur híbýlafræðings og Skarphéðins Jóhannssonar arkitekts. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, stundaði nám í líffræði við Háskóla Íslands og lauk meistaraprófi í dýravistfræði frá Wisconsin-háskóla í Madison í Wisconsinríki í Bandaríkjunum.
Á námsárum sínum hóf Kristinn Haukur störf við fuglafræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Að loknu námi starfaði hann hjá stofnuninni í yfir þrjá áratugi, fyrst sem sérfræðingur og síðar yfirmaður fagsviðs dýrafræði, þar sem hann stýrði ýmsum lykilrannsóknum á sviði stofnunarinnar. Hann helgaði sig rannsóknum á íslenska haferninum og var brautryðjandi á því sviði. Rannsóknir hans á lífsvenjum og búsvæðum arnarins skipuðu honum sess í fremstu röð fræðimanna á alþjóðavettvangi.
Kristinn Haukur skrifaði fjölmargar ritrýndar greinar og bókarkafla á sviði náttúrufræði, einkum fuglafræði. Hann naut þess að miðla þekkingu sinni og var fær í að gera það á aðgengilegan og auðskiljanlegan hátt fyrir almenning, þannig ýtti hann undir áhuga fólks á íslenskri náttúru, sérstaklega fuglum.
Kristinn Haukur kvæntist Unni Steinu Björnsdóttur lækni. Börn þeirra eru Kristín Helga þroskaþjálfi og Björn saxafónleikari. Eiginkona Björns er Georgiana hagfræðingur, og saman eiga þau dótturina Unni Dóru.
Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar minnist Kristins Hauks með hlýju og virðingu.
