Moskítóflugur fundust í hesthúsi á Suðurlandi
Moskítóflugur fundust í nóvember í hesthúsi á sveitabæ í Ölfusi. Um er að ræða nýja tegund fyrir landið, ekki sömu og greind var í fyrsta sinn á Íslandi í október.
Ábúendur urðu varir við mikinn fjölda flugna í hesthúsi 30. október og vaknaði grunur um að um moskítóflugur gæti verið að ræða. Mynd af flugunum barst samstarfsaðila Náttúrufræðistofnunar sem áframsendi hana til stofnunarinnar. Í kjölfarið fór sérfræðingur á vettvang ásamt samstarfsaðilanum til að safna sýnum. Við vettvangsferðina safnaðist töluverður fjöldi flugna sem reyndust tilheyra tegund moskítóflugna af ættkvíslinni Culex. Málið verður rannsakað nánar og eintök send í frekari rannsóknir til að staðfesta tegundaheitið.
Þetta er önnur moskítótegundin sem greind hefur verið á Íslandi á stuttum tíma, en sú fyrri fannst í Kjós í október. Ekki er vitað með vissu hvernig flugurnar hafa borist hingað til lands en hugsanlegt er að þær hafi komist með mannlegum umsvifum, til dæmis með vöruflutningi. Náttúrufræðistofnun mun fylgjast vel með framvindu mála.
Stofnunin hvetur fólk til að senda inn ábendingar ef grunur vaknar um moskítóflugur. Myndir má senda á netfangið matthias.s.alfredsson@natt.is með upplýsingum um staðsetningu og aðstæður, einnig er hægt að skilja eftir sýni í móttöku Náttúrufræðistofnunar í Garðabæ.