Skip to main content
search

Ný kóraltegund skráð við Ísland

Ný vísindagrein, sem birtist í tímaritinu Marine Biodiversity, greinir frá því að kóraltegundin Crypthelia medioatlantica hafi fundist í fyrsta sinn í íslenskri efnahagslögsögu. Skráningin byggist á eintökum sem safnað var á vegum BIOICE-verkefnisins árið 1996.

Tegundin kom í ljós í sýnunum sem var safnað á 1539 m dýpi vestur af Íslandi. Alls fengust sex þurr og hálfsteingerð brot úr kalkbeinagrind kórals. Með ítarlegri greiningu á byggingu og lögun brotanna kom í ljós að þau tilheyrðu tegundinni Crypthelia medioatlantica, sem fram til þessa hafði aðeins verið þekkt sunnan við 23°N á Mið-Atlantshafshryggnum. 

Niðurstöðurnar sýna að útbreiðslusvæði tegundarinnar nær líklega mun norðar en áður var talið, eða um það bil að 65° N, á kaldtempruðu hafsvæði. Tegundin bætist þar með í hóp fjögurra annarra  tegunda af ættinni Stylasteridea sem þekktar eru á norðlægum breiddargráðum í Norður-Atlantshafi. 

Rannsóknin bendir til þess að C. medioatlantica hafi, að minnsta kosti sögulega, verið hluti af botndýrasamfélögum á djúpsjávarbotni við Ísland. Jafnframt dregur hún fram að fjölbreytni stjörnukóralla á lítt könnuðum hafsvæðum kann að vera vanmetin og undirstrikar mikilvægi sögulegs safnkosts. 

Að mati greinarhöfunda er mikilvægt að samhliða endurskoðun eldri sýna fari fram markviss sýnataka sem hentar til sameindafræðilegra rannsókna, til að skýra betur hvort um sé að ræða lifandi stofn við Ísland eða leifar af horfnum staðbundnum stofni.

Guðmundur Guðmundsson flokkunarfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun er einn af höfundum greinarinnar.

Samimi-Namin, K., Bax, N., Guðmundsson, G., Sampaio, Í. og Cairns, S. D. (2026). Northernmost record of Crypthelia medioatlantica (Hydrozoa: Stylasteridae) in Icelandic deep waters. Marine Biodiversity 56, 11. https://doi.org/10.1007/s12526-025-01613-1