Ný rannsókn skoðar hvernig finna megi hentug svæði fyrir vindorkunýtingu á landi á Íslandi
Ný rannsókn fjallar um hvernig hægt sé að nýta nútímaleg kortagögn og stafrænar greiningaraðferðir til að finna hentug svæði fyrir vindorkunýtingu með sem minnstum áhrifum á náttúru og samfélag.
Í rannsókninni er litið til rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúru og orkuauðlinda, sem hingað til hefur fyrst og fremst verið notuð við mat á vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Aðferðafræði rammaáætlunar er nú að þróast til að taka einnig til vindorku á landi. Alþingi hefur samþykkt að setja tvö vindorkuverkefni í orkunýtingarflokk rammaáætlunar og gætu þau markað upphaf nýrrar tegundar orkuframleiðslu á Íslandi í samræmi við markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.
Rannsóknin leggur áherslu á notkun landupplýsingakerfa (GIS), þar sem margir ólíkir þættir eru metnir samtímis við val á staðsetningu vindorkuvera. Þar er meðal annars horft til sjónrænna áhrifa, áhrifa á fuglalíf, hávaða, skuggaflökts og nálægðar við friðlýst svæði og byggð. Sérstök áhersla er lögð á þrívíddarframsetningu og greiningu á sýnileika í landslagi, sem getur hjálpað bæði sérfræðingum og almenningi að átta sig betur á því hvernig vindorkuver myndu birtast í umhverfinu.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að með markvissri notkun slíkra greininga megi draga úr neikvæðum áhrifum vindorkuuppbyggingar og auka skilning og sátt í samfélaginu. Höfundar telja jafnframt að þessar aðferðir geti nýst vel við áframandi mótun regluverks og ákvarðanatöku um vindorku á Íslandi, þar sem leitast er við að samræma uppbyggingu endurnýjanlegrar orku við vernd náttúru og samfélagslegra hagsmuna.
Meðal höfunda greinarinnar er Michaela Hrabalíková, sérfræðingur landupplýsinga, hjá Náttúrufræðistofnun.
Cook, D., Pétursson, J. G. og Hrabalíková, M. 2026. Site selection for onshore wind energy in Iceland using GIS-based mapping. Energy Strategy Reviews 63, 102058. https://doi.org/10.1016/j.esr.2026.102058