Ný rannsókn sýnir rýrnun Hofsjökuls eystri og hvarf Okjökuls
Í nýrri vísindagrein sem birtist í tímaritinu Annals of Glaciology er fjallað um þróun og rýrnun Hofsjökuls eystri og Okjökuls undanfarin 135 ár. Rannsóknin byggir á sögulegum gögnum, loftmyndum, gervihnattamyndum og stafrænum hæðarlíkönum sem varpa ljósi á breytingar á flatarmáli og rúmmáli jöklanna.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að báðir jöklarnir voru um 7 km2 að flatarmáli á fjórða áratug 20. aldar en þrátt fyrir svipaða hæð yfir sjó og breiddargráðu hafa þeir þróast með ólíkum hætti. Okjökull hefur nú horfið en Hofsjökull eystri hefur misst um 70% af flatarmáli sínu og um 90% af rúmmáli. Mesta þykkt hans var metin um 55 m árið 2024. Spár benda til þess að með sama þynningarhraða muni Hofsjökull eystri hverfa að fullu innan 30–45 ára.
Meðal höfunda greinarinnar er Joaquín Muñoz-Cobo Belart, sérfræðingur fjarkönnunar hjá Náttúrufræðistofnun.
Guðmundsson, S., Magnússon, E., Belart. J. M. C., Hannesdóttir, H. og Aðalgeirsdóttir, G. (2025). The fate of two Icelandic glaciers in warming climate: Hofsjökull eystri and Okjökull. Annals of Glaciology 55, e36. https://doi.org/10.1017/aog.2025.10026