Skip to main content
search

Ný rannsókn varpar ljósi á þróun jökla og landslags í Fremri-Grasárdal

Birt hefur verið grein í tímaritinu Permafrost and Periglacial Processes sem fjallar um hvernig jöklar og landslag í Fremri-Grasárdal í Skagafirði hafa þróast frá lokum síðasta jökulskeiðs og í gegnum núverandi hlýskeið (hólósen). 

Rannsóknin sýnir hvernig landslagið innst og hæst í dalnum hefur mótast af jökulrofi, sethreyfingum sem fylgja hörfun jökla og frost- og þíðuferlum sem einkenna fjalllendi Tröllaskaga. Vísindamenn kortlögðu jökulminjar og yfirborðsform og greindu aldur þeirra með aldursgreiningum á bergi, mælingum á veðrun yfirborðs og breytingum á landslagi yfir 25 ára tímabil. 

Niðurstöðurnar sýna að dalurinn varð smám saman jökullaus snemma á hólsósen, í áföngum fyrir um 9.000–10.700 árum síðan. Þrír smájöklar mynduðust í dalnum á síðari hluta hólósen en hafa þróast með ólíkum hætti síðustu 3–4 þúsund ár. Einnig kemur fram að jöklar í dalnum hafi dregist verulega saman frá litlu ísöld og hröð bráðnun á síðustu áratugum hafi haft áhrif á flutning og upphleðslu sets í dalnum. Nú sjást skýr merki um bráðnun íss og jökulleifa sem hafa varðveist undir setlögum áratugum og öldum saman, auk merkja um hnignandi sífrera í setlögum, það er bráðnun áður frostbundins efnis. Rannsóknin varpar þannig ljósi á hvernig hlýnandi loftslag getur haft áhrif á dal- og hvilftarjökla, frost- og þíðuferla og þróun landslags á fjallasvæðum norðanlands.

Meðal höfunda greinarinnar er Skafti Brynjólfsson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun.

Santos-González, J., Palacios, D., González-Gutiérrez, R. B., ernández-Fernández, J. M., Schimmelpfennig, I., Peña-Pérez, S., Tanarro, L. M., Andrés, N., Melón-Nava, A., Farnsworth, W. R., Brynjólfsson, S., Sæmundsson, Þ., Aumaitre, G. og Keddadouche, K. (2025). Holocene Glacial–Paraglacial–Periglacial Transitions of a Sub-Arctic Glacial Cirque, Fremri-Grasárdalur, Northern Iceland. Permafrost and Periglacial Processes, 2025; 0: 1–29. https://doi.org/10.1002%2Fppp.70017