Nýjar loftmyndir af Austfjörðum
Nýjar loftmyndir af Austfjörðum eru nú aðgengilegar í Kortaglugga Íslands. Um er að ræða fyrstu gögnin úr loftmyndatökum sem fóru fram í ágúst 2025. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stóð fyrir útboði á verkinu árið 2024. Markmið verkefnisins er að byggja upp loftmyndagrunnkort af öllu landinu sem er opið almenningi án endurgjalds. Gögnin verða birt jafnóðum og þau berast og verður flogið á næstu árum þar til fyrir liggja vandaðar loftmyndir í hágæða upplausn af landinu öllu.
Hægt er að hlaða loftmyndunum niður í 1×1 km reitum og er niðurhal á þeim ótakmarkað. Notendur geta valið hvort myndirnar eru birtar í lit eða sem innrauðar.
Upplausn myndanna er 25×25 cm og áætluð nákvæmni þeirra er 50 cm, en hún reynist þó oftast meiri. Náttúrufræðistofnun hefur sannreynt nákvæmni gagnanna. Loftmyndirnar voru hnitsettar með GPS-fastpunktum sem settir voru upp víðs vegar um landið á árunum 2023–2024.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um gögnin, þar með talið tengil á wms-lag, í Lýsigagnagátt.