Sögulegar loftmyndir aðgengilegar í Loftmyndasjá
Náttúrufræðistofnun hefur nýlega gert stafrænt skannaðar svarthvítar loftmyndir aðgengilegar. Um er að ræða myndir af filmum sem bandaríski herinn tók á árunum 1945–1946 og 1956–1961, í gegnum American Mapping Services og Defense Mapping Agency.
Myndirnar eru nú aðgengilegar í Loftmyndasjá Náttúrufræðistofnunar, gróflega hnitsettar eftir fluglínum. Notendur geta fundið myndirnar eftir fluglínum, smellt á miðju hverrar myndar og skoðað eða hlaðið þeim niður í hárri upplausn. Einnig er hægt að bera þessar sögulegu myndir saman við nýlegar loftmyndir í Loftmyndasjánni.
Í þessum tveimur umfangsmiklu loftmyndaleiðöngrum náðust myndir af yfir 90% landsins, sem gerir gagnasettið að einu því ítarlegasta í loftmyndasafni Íslands. Myndirnar fanga merkilegt tímabil í sögu landsins, rétt eftir síðari heimsstyrjöldina, þegar örar samfélags- og landnotkunarbreytingar áttu sér stað og víða má greina þær á myndunum.
Þá náðust myndir af öllum jöklum landsins í þessum leiðöngrum, sem gerir gögnin sérstaklega verðmæt til að mæla og meta breytingar og rýrnun jökla á síðustu öld.