Fiskstofnar í Mývatnssveit

Markmið verkefnisins er að greina útlits- og erfðabreytileika fiska í Mývatni og nágrenni og setja í samhengi við stofnstærðir, stofnbreytingar, fæðuframboð og aðra umhverfisþætti.
Bleikju hefur stórfækkað í vatninu á síðustu áratugum. Stofn hennar hefur illa þolað síendurtekinn fæðuskort sem fylgir átusveiflum í vatninu, sem aftur hefur neikvæð áhrif á tímgun. Langan tíma tók að aðlaga veiðisókn þessum nýja veruleika. Til eru veiðitölur allt frá árinu 1900, auk ítarlegrar frásagnar af veiðinni á síðari hluta 19. aldar. Eftir stöðugleikatímabil frá 1922–1972 fór bleikjuveiði hrakandi og gripið var til róttækrar sóknartakmörkunar. Vöktun stofnsins hófst með núverandi sniði árið 1986 og hefur meðal annars sýnt að oft hefur mjög lítið verið af smábleikju. Nú er jafnframt stuðst við loftmyndir af riðastöðvum sem gefa vísbendingu um hrygningarvirkni stofnsins.
Hornsílastofninn í Mývatni hefur verið mjög stór frá því vöktun hófst um 1989 og hefur þéttleikinn verið meiri í Ytriflóa en Syðriflóa. Stofnstærðin hefur þó sveiflast mjög. Enn sem komið er hafa rannsókir ekki stutt þá tilgátu að hornsílin éti upp mýið og knýi þannig mýsveiflurnar. Er nú unnið með rannsóknatilgátur sem gera ráð fyrir að stór sílastofn geti fækkað í stofnum vissra mikilvægra átutegunda og þannig ýkt lífríkissveiflur, og auk þess hraðað umsetningu fosfórs í vatninu og hvatt þannig til blábakteríublóma.
Gjáarlontur eru smávaxin bleikjuafbrigði sem finnast í hraunhellum við Mývatn. Þetta eru margir litlir og einangraðir stofnar sem hafa mikið verndargildi, einkum út frá þróunarfræðilegu sjónarmiði. Hópur tengdur Hólaskóla rannsakar nú erfðabreytileika og þróun gjáarlonta með tilliti til umhverfisaðstæðna. Þá er sérstakt bleikjuafbrigði í Mývatni, krús, sem brýnt er að rannsaka af sömu ástæðum.