Gróðurkort af Íslandi
Tímamörk
Langtímaverkefni sem unnið var að nær óslitið frá árinu 1955 til 2023. Gróðurkortlagningu á vettvangi lauk þó fyrir 2020. Enn eru til óunnin frumgögn sem gera þarf stafræn.
Samstarfsaðilar
Gróðurkort voru mikið unnin fyrir skipulagsyfirvöld, verkfræðistofur, Landsvirkjun og fleiri aðila. Náttúrustofa Vestfjarða vann að staffæringu frumgagna á tímabilinu 2008-2013.
Um verkefnið – Markmið og verkþættir
Gerð korta af gróðri landsins hófst að marki í upphafi sjötta áratugarins á vegum búnaðardeildar Atvinnudeildar Háskóla Íslands, síðar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (Rala). Frá árinu 1995 var starfsemin flutt frá Rala og vistuð á Náttúrufræðistofnun Íslands og var þá í umsjón Guðmundar Guðjónssonar fram til ársins 2021 þegar hann lét af störfum. Gróðurkortagerð á Íslandi í sex áratugi er ein umfangsmesta og nákvæmasta vettvangsskráning sem fram hefur farið á náttúru landsins.
Upphaflega var gróðurkortagerðin hafin í þeim tilgangi að skapa vísindalegan grunn fyrir ákvarðanir um beitarþol og nýtingu þeirrar auðlindar sem gróður og jarðvegur landsins er. Jafnframt var ætlunin að leiða í ljós ástand gróðurs og jarðvegs, kortleggja hvar gróður- og jarðvegseyðing ætti sér stað eða væri yfirvofandi og hvar væri hentugt land til uppgræðslu. Ætlunin var að þær stofnanir sem vinna að þessum málum hagnýttu sér gróðurkortin sem og niðurstöður annarra gróðurrannsókna sem unnar voru í tengslum við kortagerðina. Gróðurkortin voru frá upphafi byggð á gróðurflokkunarkerfi Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum.
Ein aðalástæðan fyrir flutningi gróðurkortagerðarinnar frá Rala á Náttúrufræðistofnun Íslands var sú að þörfin fyrir gróðurkort við mat á beitarþoli var mun minni en áður vegna fækkunar fjár og minnkandi beitarálags sauðfjár. Aftur á móti hafði þörf fyrir náttúrufarsupplýsingar af gróðurkortunum aukist vegna skipulags og mats á umhverfisáhrifum framkvæmda. Auk þess féll söfnun á upplýsingum um gróðurfar landsins mjög vel að lagalegri skyldu Náttúrufræðistofnunar, sem felur m.a. í sér að safna gögnum og varðveita heimildir um náttúrufar á Íslandi.
Í gróðurkortunum felast m.a. upplýsingar um hversu mikið land er gróið eða ógróið, hvers konar gróður eða landgerð er um að ræða, og gróðurþekju sem geta gefið vísbendingar um annað náttúrufar og verið undirstaða frekari náttúrurannsókna eða ákvörðun landnýtingar. Gróðurkortlagning á vettvangi fer þannig fram að gengið er um landið og mörk gróðurfélaga og landgerða eru færð inn á loftmyndir eða myndkort. Hver fláki er flokkaður með sjónmati í gróðurfélög og landgerðir samkvæmt hefðbundnum gróðurlykli Náttúrufræðistofnunar. Gróðurkort sýndu ýmist gróðurfélög eins og þau voru afmörkuð á vettvangi inn á myndkort eða gróðurfélögin voru tekin saman í stærri flokkunareiningar og sett fram á gróðurlendakorti eða korti sem sýndi gróðursamfélög.
Nánari upplýsingar
Gróðurlykill (pdf)
Árið 2023 kom út 2. útgáfa Gróðurkorts af Íslandi í mælikvarðanum 1:25.000. Enn liggja þó fyrir staffærð kortgögn sem þarfnast yfirlestrar sem og óunnin frumgögn.
Niðurstöður
Auk þess sem að ofan er talið hafa hin ýmsu gróðurkort verið gefin út á vegum stofnunarinnar í skýrslum.
Tengiliður
Sigurður Kristinn Guðjohnsen, sérfræðingur í landupplýsingum.