Nýjar loftmyndir af Öræfum
Loftmyndir af Öræfum hafa nú verið birtar í Kortaglugga Íslands og bætast þar með við myndir frá Austfjörðum sem gerðar voru aðgengilegar fyrr í þessum mánuði. Um er að ræða gögn úr loftmyndatökum sem fóru fram í ágúst 2025, en unnið er að því að byggja upp loftmyndagrunn af öllu landinu sem er opið almenningi án endurgjalds.
Notendur geta skoðað og hlaðið niður myndunum í 1×1 km reitum og valið hvort þær eru birtar í lit eða sem innrauðar myndir.
Greint verður frá nýjum loftmyndum á samfélagsmiðlum Náttúrufræðistofnunar eftir því sem gögn bætast við í Kortaglugga Íslands. Á næstunni er von á myndum frá fleiri stöðum, meðal annars frá Norðurþingi, Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi.